Hönnun golfvalla og ráðgjöf við stór verk og smá
Eureka Golf var stofnað 2002 og veitir fjölþætta þjónustu við skipulag, og hönnun golfsvæða, innanlands og utan, undir forystu og merkjum íslenska golfvallahönnuðarins Edwin Roald og með eftirtalin sérsvið:
Carbon Par: Kolefnisbinding og losun
Með stofnun Carbon Par 2019 var frumkvæði tekið í umræðu um kolefnisbindingu og losun á golfvöllum á heimsvísu. Félagið stendur að rannsóknum á alþjóðlegum vettvangi, í samstarfi við háskóla og golfsambönd, m.a. á Le Golf National í París, þar sem keppni um Ryder-bikarinn fór fram 2018 og golfkeppni Ólympíuleikanna fer fram á 2024. Þekkingin er nýtt í öllum nýjum hönnunarverkefnum og ráðgjöf boðin golfklúbbum sem vilja ná kolefnishlutleysi, skoða möguleika sína á að fá vottaðar kolefniseiningar og búa sig undir æ umfangsmeira regluverk og verða eftirsóknarverðari söluaðili og viðskiptavinur í augum stærri fyrirtækja, s.s. banka, sem þegar þurfa að standa skil á upplýsingum um losun sína og greiða fyrir hana.
Góð hönnun lágmarkar líkur á svellkali
Grasdauði og aðrar vetrarskemmdir eru meðal þýðingarmestu viðfangsefna íslenskra golfvalla. Afleiðingar eru m.a. kostnaður, tekjutap og orðsporsáhætta. Svellkal er helsta orsök vetrarskaða á golfvöllum. Þó ógerningur sé að koma alfarið í veg fyrir kal yfir langan og umhleypingasaman veturinn, þá getur markviss hönnun, með tilliti til svellkals, dregið verulega úr líkum á grasdauða. Þar koma til atriði á borð við hallaprósentu og stefnu, uppbyggingu, aðgengi sólar og vinda úr hlýjustu átt, nýtingu sandgryfja sem niðurföll fyrir leysingavatn og vetraraðgengi að viðkvæmum svæðum.
Gott vald á nýrri tækni sparar tíma og fjármuni
Landmælingar með dróna
Hönnun er byggð á nákvæmari, ódýrari og fljótlegri landmælingum en áður voru í boði. Drónar eru notaðir til að mæla upp landið, með þríhyrningamælingum eða LIDAR. Þetta flýtir hönnun, sem fyrir vikið krefst færri heimsókna, bæði við gerð hönnunargagna og við eftirfylgni á verktímanum. Heimsóknir eru ekki nauðsynlegar, heldur eru þær aðeins valkvæðar. Ef þess er óskað, þá er hægt að sinna allri hönnun og eftirfylgni í fjarvinnu, með tilheyrandi sparnaði.
Vélstýring
Hönnunargögn eru mjög ítarleg. Útbúin eru sérstök vélstýringarlíkön sem má jafnvel senda beint inn í GPS-tengdar vinnuvélar, sem margir jarðvinnuverktakar búa yfir í dag. Með þessari tækni er unnt að komast hjá innflutningi sérhæfðra vélastjórnenda með reynslu af golfvallagerð. Þess í stað geta verktakar í heimabyggð unnið nákvæmlega samkvæmt hönnun, án þess að til þurfi að koma tímafrek og erfið túlkun á flóknum hæðarlínuuppdráttum. Útsetning hæla verður óþörf og vart verður við sparnað víða í verkferlinu. Lauslegur samanburður gefur til kynna að góð þekking á þessari tækni geti fækkað vinnuvélastundum um fjórðung.
Blönduð landnýting
Í langflestum nýjum hönnunarverkefnum okkar hafa golfvellir verið skipulagðir sem burðarásar fjölnota útivistarsvæða með göngu-, hlaupa- og hjólastígum og sums staðar með reiðgötum, áningar- og stangveiðistöðum. Einnig hafa gönguskíðabrautir víða verið lagðar á vetrum. Með þessu má samnýta innviði, brjóta niður ósýnilega múra milli kylfinga og annarra, nýta mannvirki betur allt árið, fjölga tekjuleiðum golfvallarins og upplýsa fólk, sem ekki leikur golf, betur um það starf sem fer fram á golfvöllum, í þágu umhverfis og samfélags.
Höggspár
Fyrirtækið býr yfir stórum gagnabanka golfhögga sem slegin hafa verið í golfhermum, undir eftirliti. Við vitum kyn, aldur og forgjöf eða getu á bak við hvert högg. Með okkar eigin hugbúnaði getum við valið ákveðnar tegundir högga og framkvæmt svokallaðar höggspár, þar sem reiknað er með völdum vindstyrk, vindátt, hitastigi, hæðarmun og loftþrýstingi, eða hæð yfir sjávarmáli. Þessi tækni, sem er einstök á heimsvísu, gerir okkur kleift að taka upplýstar ákvarðanir um staðsetningu teiga, sandglompa o.fl. auk þess að styðja við ráðgjöf um öryggismál á golfvöllum, hæð á öryggisneti við æfingasvæði o.s.frv.
Golfhermar og ný hugsun í skipulagi
Golfhermar hafa ekki aðeins breytt því hvernig við æfum okkur og spilum golf, heldur einnig hvernig við nálgumst skipulag og hönnun vallanna. Til dæmis má nýta lendingarsvæði æfingasvæðanna betur og gera þar svokallaða stuttvelli. Þá má bjóða fólki að leika, nýliðum sem og lengra komnum, á meðan þeir sem annars hefðu notað æfingasvæðið fá að æfa sig í golfhermum innandyra, sem einnig skila tekjum í útleigu og nýtast til afþreyingar og afreksstarfs á vetrum.
Frá 9 til 12
Á mörgum 9-holu völlum leynast falin tækifæri til að fjölga holum í tólf og fjölga þannig rástímum verulega. Fróðlegt getur reynst að skoða hvað gera þurfi til að stækka, hve mikið það kosti og hvers yrði til unnið.
Hönnun með sjálfvirkni í huga
Sjálfvirkar, rafknúnar sláttuvélar virðast komnar til að vera. Margt bendir til að þær muni gerbreyta rekstri golfvalla, sérstaklega ef hönnun þeirra og uppsetning tekur mið af þessari nýju, síbreytilegu tækni. Með samstarfi við helstu framleiðendur má útbúa hönnunargögn eða kort af völlunum sem samræmast stýrikerfi þessara nýju véla. Einnig kalla þær á breytt viðhorf og nálgun hönnuða, m.a. hvað varðar halla, beygjuradíus, snúningspláss, hleðslustöðvar o.s.frv.
Leikhraði og flæði
Leikhraði og flæði á vellinum getur haft mikil áhrif á upplifun kylfinga og tekjur af golfvöllum. Almennt hefur áhersla verið lögð á að hvetja kylfinga til dáða. Á hinn bóginn er hugsanlegt að einfaldar, fljótlegar og ódýrar aðgerðir rekstraraðilanna sjálfra hafi setið á hakanum. Algengt er að flöskuhálsar myndist á sömu gömlu stöðunum, en svo þarf ekki alltaf að vera. Í boði eru tillögur að úrbótum, mismunandi að umfangi og í forgangsröð.
Nýleg verkefni
Glyvursnes, Færeyjum
Nýr völlur í Færeyjum.
Lake Tahoe, Bandaríkjunum
Hagsmunagæsla og landnýtingartillögur.
Selfoss
Þrjár nýjar holur til að liðka fyrir nýjum þjóðvegi og brú, stækkun úr níu holum í átján, nýtt æfingasvæði og stuttvöllur.
Fyrirtækið og hönnuðurinn
Skilaboð frá Edwin Roald
Ég stofnaði Eureka Golf 2002 og hef síðan hannað golfvelli og veitt tengda ráðgjöf, lengst af á Íslandi og síðar erlendis. Ég hef lengi gegnt trúnaðarstörfum á vettvangi umhverfisverndar í golfhreyfingunni innanlands og utan, m.a. með stjórnarsetu í Félagi evrópskra golfvallahönnuða, EIGCA, og formennsku í sjálfbærninefnd þess. Einnig hef ég setið í stjórn umhverfisrannsóknasjóðsins STERF, sem stofnaður var af norrænu golfsamböndunum, en þar hefur blönduð landnýting og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn svellkali borið einna hæst. Ég hef reynt að bæta stöðugt við þekkingu mína og tileinka mér nýjungar. Fyrir vikið hefur mér verið boðið að halda erindi á alþjóðlegum ráðstefnum, m.a. á nýsköpunarráðstefnu bandaríska golfsambandsins, USGA, í Tókýó 2019. Þar tilkynntum við aðlögun forgjafarkerfisins að golfvöllum með annan holufjölda en níu eða átján, sem er nokkuð sem ég hafði skoðað í gegnum svokallað Why-18-holes-framtak mitt síðan 2008.